Tölvuleikjastúdíóið Porcelain Fortress er eitt af hinum tíu útvöldu fyrirtækjum sem taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík þetta árið, en í ár voru 10 fyrirtæki valin úr hópi 150 sem sóttu um. Björn Elíeser Jónsson, einn stofnenda Porcelain Fortress, lýsir því sem litlu „indie“ tölvuleikjastúdíói. Teymið samanstendur af Jónasi Valtýssyni, Ottó Geir Borg, Einari Kristjáni og Sigmundi Breiðfjörð ásamt Birni.

„Við erum að framleiða leiki í minni kantinum. Við erum með gott teymi af reynslumiklum einstaklingum úr tölvuleikjabransanum. Í grunninn gerum við litla, skemmtilega leiki, sem eru uppfullir af spennu, fjöri og fallegri list,“ segir Björn. Hann tekur fram að fyrirtækið hanni sér í lagi leiki fyrir PC, Mac og leikjatölur, en hanni ekki leiki fyrir farsíma. „Svo stefnum við sérstaklega að því að gefa út leiki fyrir Nintendo Switch, nýju Nintendo leikjatölvuna,“ bætir hann við.

Kickstarta leiknum í sumar

Porcelain Fortress var stofnað óopinberlega í fyrra þegar Björn hætti hjá sýndarveruleikafyrirtækinu Mure. „Þá fór ég að vinna í leik sem átti að vera einungis fyrir sýndarveruleika. Um áramótin leit það þannig út að sýndarveruleikamarkaðurinn varð ekki að því sem fólk bjóst við að hann myndi verða. Það var búið að lofa svolítið upp í ermina á sér. Ég sá fram á að gefa út leik þar sem þú ert með 600 samkeppnisaðila að berjast um 200 þúsund notendur. Þá fórum við að leggja aukinn kraft í 2D leikina og erum samhliða því að leita að fjármagni fyrir sýndarveruleikahliðina. Það sem við erum að gera núna er meira svona hefðbundinn leikur í 2D. Ég kynntist svo honum Sigmundi, listamanninum okkar í desember, hann er gífurlega fær. Þá ákváð­ um við að nýta hans hæfileika, en hann teiknar frábærar 2D myndir.

Fyrirtækið er nú að vinna grunninn að nýjum tölvuleik og vonast Björn til að geta sett hann á Kickstarter í lok sumars til að safna fyrir útgáfu hans. „Þú metur umfangið út frá því hvað þú ert með í höndunum. Ef Kickstarter gengur vel eða við fáum frekara fjármagn þá leyfum við okkur að gera stærri leik en annars,“ segir Björn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er.