*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 5. janúar 2021 13:12

Leggja allt kapp á að finna loðnu

Fimm skip héldu af stað til mælinga á loðnustofninum í gær. Mikilvægt fyrir viðspyrnu efnahagslífsins að loðna veiðist í vetur.

Ritstjórn
Yfirstandandi vetur gæti orðið sá þriðji í röðinni þar sem verður loðnubrestur ef mælingar koma illa út.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir stöðu loðnuleitar. Vísaði ráðherra til þess í gær fóru bæði rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar ásamt þremur uppsjávarskipum til mælinga á loðnustofninum. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.  

Mun rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefja mælingar út af Vestfjörðum en rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson mun leita og mæla á grunnslóð út af Norðurlandi. Þá munu uppsjávarskipin Aðalsteinn Jónsson, Ásgrímur Halldórsson og Polar Amarok leita út af Austfjörðum, Norðausturlandi og djúpt út af norðanverðu landinu. Alls eru um 20 sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar um borð í skipunum auk sjómanna skipanna og því eru um 75-80 manns sem koma beint að verkefninu á hafi úti.

„Í samræmi við breytingatillögu fyrir 3. umræðu var í fjárlögum ársins 2021 ákveðið að Hafrannsóknastofnun fái 120 milljón króna aukaframlag til rannsókna og leitar að loðnu enda skiptir það miklu fyrir viðspyrnu efnahagslífsins að loðna veiðist í vetur. Hafrannsóknastofnun hefur gert samninga við útgerðir uppsjávarskipa um þátttöku í mælingum á loðnu í janúar og febrúar og gerir aukaframlagið það að verkum að hægt verður sinna mælingum með mörgum skipum og á þann hátt fá niðurstöður fáist á stuttum tíma þegar aðstæður á miðunum leyfa,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.