Þótt áhuginn á íslenskum útrásarfyrirtækjum og fjármálamönnum sé víða ótrúlega mikill er áhuginn þó líklega hvergi jafnmikill og í Danmörku og danskir fjölmiðlar skrifa hreint ótrúlega mikið um íslensk fyrirtæki og fjárfestingar Íslendinga í Danmörku þótt hún sé í reynd aðeins mjög lítið brot af fjárfestingu erlendra aðila þar í landi.

Mörgum íslenskum fjárfestum og fyrrtækjastjórnendum hefur þótt danska pressan heldur óbilgjörn í garð Íslendinga og sumir ganga jafnvel svo langt að fullyrða að hún hafi stundum nánast ofsótt íslensku útrásarfyrirtækin og keppst við að breiða út óhróðri um þau.

„Núna undanfarna mánuði hefur umfjöllunin verið alveg með ólíkindum. Mín reynsla er sú að danskir fjölmiðlar, sem eru í eðli sínu frekar neikvæðir, séu mjög óbilgjarnir í umfjöllun sinni um íslensk fyrirtæki og skrifi ekki um þau með eðlilegum og hlutlægum hætti, " segir einn viðmælandi Viðskiptablaðsins sem lengi hefur starfað í Danmörku.

Að vísu er nokkuð misjafnt hvernig íslenskir athafnamenn bera dönskum fjölmiðlum söguna enda er það ekki svo að allir hafi orðið harkalega fyrir barðinu á henni; mönnum ber hins vegar almennt saman um að danska pressan sé almennt mjög neikvæð í garð Íslendinga og íslensku útrásarfyrirtækjanna og taki þau ekki sömu heldur miklu harðari tökum en dönsku fyrirtæki.

Finn Mortensen, ritstjóri viðskiptafrétta á Berlingske Tidende, hafnar þessum ásökunum og segir menn taka íslensku fyrirtækin sömu tökum og þau dönsku. Hann bendir einnig á að þvert á það sem menn eigi að venjast í Danmörku sé stundum ill- eða ómögulegt að fá eðlilegar upplýsingar um rekstur og fjárhagslega stöðu sumra íslenskra fyrirtækja eins og t.d. um Baug Group. Þá segir Finn að viðskipti með félög milli tengdra aðila við stighækkandi verði eins og í tilviki Sterling, sem aldrei hafi skilað hagnaði, hljóti óneitanlega að vekja tortryggni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .