Icelandair hefur lagt einni Boeing 737 Max vél í varúðarskyni í kjölfar greiningar frá framleiðanda vélarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Í liðinni viku var sagt frá því á vef Viðskiptablaðsins að Boeing hefði beðið sextán flugfélög um að stöðva notkun 737 Max véla sinna tímabundið vegna hugsanlegra vandamála tengdu rafmagnsbúnaði vélanna. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair á þeim tíma hafði tilkynningin ekki áhrif á vélar félagsins.

„Í kjölfar nánari greiningar hjá Boeing, hefur Icelandair nú verið tilkynnt að sambærilegt mál hafi áhrif á eina MAX vél í flota Icelandair. Icelandair hefur því í varúðarskyni tekið tiltekna vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úrbætur gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda,“ segir í tilkynningu.

Þar segir enn fremur að vandamálið tengist ekki MCAS-kerfinu en galli í því varð til þess að tvö mannskæð flugslys urðu á 737 Max þotum og að vélarnar voru kyrrsettar um víða veröld tímabundið á meðan unnið var að lagfæringu.