*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 18. maí 2021 11:40

Óska eftir úttekt á SKE

Níu þingmenn hafa óskað eftir úttekt á Samkeppniseftirlitinu, m.a. um framkvæmd samrunamála, meðferðatíma og óháða kunnáttumenn.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Haraldur Guðjónsson

Níu þingmenn úr röðum Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Miðflokksins hafa lagt fram beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um starfsemi Samkeppniseftirlitsins (SKE). Óskað er eftir að mati á árangri af eftirlitshlutverki stofnunarinnar og að kannað verði hvernig framkvæmd samrunamála, þar á meðal skipun óháðs kunnáttumanns, var á árunum 2018, 2019 og 2020.

„Atvinnulífið hefur lengi gagnrýnt málsmeðferðartíma Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum og telur brýnt að hraða ferlinu og lágmarka kostnað fyrirtækja og atvinnulífs vegna fyrirhugaðra samruna,“ segir í greinargerð þingskjalsins.

Meðal atriða sem er óskað eftir úttekt á er fjölda samrunatilkynninga, hversu oft hafi verið óskað eftir lengri tilkynningum eða þær taldar ófullnægjandi og almennt spurt um meðferðartíma samrunamála. Einnig er spurt um hversu mörg samrunamál sættu frekari rannsókn, þ.e. færðust yfir í fasa II.

Þá er óskað eftir mati á þeim tilfellum þegar skipaður er óháður kunnáttumaður. Spurt er um hvaða svigrúm fyrirtæki hafa til að velja sér kunnáttumann, hvaða eftirlitsúrræði SKE hefur gagnvart þeim sem skipaðir eru og hvaða reglur gilda um þóknun kunnáttumanns.

Mikil umræða skapaðist í kringum eftirlitið vegna sölu Festi á Kjarvalsversluninni á Hellu, sem var eitt af skilyrðum í sátt félagsins við SKE vegna samrunans við N1 í júlí árið 2018. Var þar meðal annars gagnrýnt mikinn kostnað Festi af óháðum kunnáttumanni sem var skipaður í kjölfar sáttarinnar. Í lok mars síðastliðnum kölluðu Samtök Atvinnulífsins eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á SKE vegna málsins.

Að lokum óska þingmennirnir eftir úttekt á áhrifum ákvarðana eftirlitsins, annars vegar hvort samrunaskilyrði hafa náð markmiðum sínum og hins vegar hvort gagnasöfnun sýni tímalengd mála.

„Samkeppniseftirlitið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Eftirlitið þarf að vera skilvirkt og málshraðinn viðunandi, ekki síst þegar kemur að samruna fyrirtækja. Hagsmunir bæði atvinnulífs og neytenda eru best tryggðir með því að kaup og sala fyrirtækja og rekstrareininga gangi skjótt fyrir sig, séu hafin yfir vafa og dragi ekki úr virkri samkeppni á markaði,“ segir í greinargerðinni.

Samrunamál skilvirkari hjá ESB og Noregi

„Til samanburðar hefur verið greint frá því að framkvæmd samrunamála á vettvangi Evrópusambandsins og í Noregi sé mun skilvirkari og skjótari en hér á landi,“ segir í lok greinargerðarinnar og svo virðist sem að þingmennirnir vitni þar í aðsenda grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóri SFS, og Maríu Kristjánsdóttur, lögmanns hjá LEX, sem birtist í Viðskiptablaðinu í febrúar síðastliðnum.

Bent er á að aðeins 2-3% tilkynntra samruna séu að jafnaði færð í fasa II í Noregi og hjá Evrópusambandinu, en fasi II kalli á 90 daga lengri málsmeðferðartíma, á meðan hlutfallið hér á landi hafi að meðaltali verið tæp 44% á tímabilinu 2017–2020. „Skortur sé á skýrum kröfum til Samkeppniseftirlitsins um hvernig rannsókn skuli fara fram í fasa I og að rökstyðja þurfi flutning yfir í fasa II, ólíkt því sem sjá má í Evrópusambandinu og í Noregi.“

Skýrslubeiðnin kemur frá Óla Birni Kárasyni, Brynjari Níelssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni, Sigríði Andersen, Haraldi Benediktssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Willum Þór Þórssyni og Líneik Önnu Sævarsdóttur.