Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um borgaralaun, eða skilyrðislausa grunnframfærslu. Í tillögunni er lagt til að félagsmálaráðherra verði falið, í samstarfi við fjármálaráðherra, að skipa starfshóp til að kortleggja leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og útrýma fátækt.

Verkefni starfshópsins verði að leita leiða til að tryggja öllum borgurum skilyrðislausa grunnframfærslu og að við þá vinnu verði m.a. lagt mat á kosti og galla ólíkra leiða í skilyrðislausri grunnframfærslu og kostnaðargreindar mögulegar leiðir við upptöku slíkrar framfærslu með hliðsjón af rekstrarkostnaði núverandi kerfis.

Í einföldu máli skilgreina flutningsmenn tillögunnar, þau Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir, skilyrðislausa grunnframfærslu svo að hverjum og einum borgara verði greidd ákveðin fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Hún verði greidd til einstaklinga fremur en heimila, hún verið óháð öllum öðrum tekjum og verði greidd án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu áður eða sé viljugur til að taka þá vinnu sem er í boði.

Lesa má tillöguna hér.