Píratar hyggjast leggja fram þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í tölvupósti sem Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sendi öðrum þingmönnum í dag er óskað eftir meðflutningsmönnum tillögunni.

Í tölvupóstinum segir að til að fá þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitastjórnarkosningum 31. maí í ár þurfi Alþingi að samþykkja þingsályktun þess efnis fyrir 28. Febrúar. Það sé gerlegt ef fyrir því er vilji.

Á föstudag var tillögu utanríkisráðherra dreift á Alþingi um að draga skuli aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Þær hafa legið á ís frá því fyrir síðustu alþingiskosningar.