Þingflokkur Pírata hyggst leggja fram vantrauststillögu á innanríkisráðherra um leið og Alþingi kemur saman.

„Í ljósi atburðarásar undanfarna daga og mánuði hefur þingflokkur Pírata  verið að undirbúa tillögu um vantraust á innanríkisráðherra," segir á vefsíðu þingflokks Pírata.

„Tillagan verður lögð fram þegar þing kemur saman í næsta mánuði. Ljóst er að innanríkisráðherra er vanhæf og rúin trausti í samfélaginu og því er ekki boðlegt að ráðherrann segi aðeins frá sér hluta af starfskyldum.

Þegar um traust, eða vantraust, til ráðherra er að ræða, gildir ekki reglan 'saklaus uns sekt er sönnuð' eins og gildir um almenna borgara, heldur þarf ráðherra að njóta trausts og vafi af þeirri stærðargráðu sem nú er uppi um traust til ráðherrans er skaðlegur stjórnkerfi landsins.

Ákvörðun þingflokks Pírata um vantraustsyfirlýsingu er ekki eingöngu byggð á formlegri ákæru á hendur aðstoðarmanni ráðherra heldur viðbrögðum ráðherrans í orðum og athöfnum frá því málið kom fyrst upp. Nú er ljóst að ráðherra hyggst afgreiða málið með hætti sem þingflokkur Pírata telur óásættanlegan með hliðsjón af því sem á undan er gengið. Því telur þingflokkur Pírata ekki annað fært en að leggja fram tillögu um vantraust á ráðherrann, á fyrsta degi haustþings, 9. septbember 2014 og mun þá færa nánari rök og gögn fyrir vantraustinu."