Hagar hyggjast leggja til tillögur um skilyrði og aðgerðir sem ætlað er að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið hefur leitt líkum að geti orðið við samruna félagsins og Olís.

Hagar hafa því afturkallað fyrri samrunatilkynningu og hyggjast senda inn nýja. Það felur jafnframt í sér að Samkeppniseftirlitið mun ekki kveða upp ákvörðun um fyrri tilkynningu Haga.

Í tilkynningu frá eftirlitinu segir að rannsókn þess á samrunanum hafi verið umfangsmikil en í henni hafa meðal annars fjögur atriði verið til skoðunar en þau eru:

  • Staða samrunaaðila á dagvöru- og eldsneytismörkuðum, meðal annars m.t.t. áhrifa af innkomu Costco á þessa markaði og áhrif samrunanna á einstökum landfræðilegum mörkuðum.
  • Áhrif samrunanna á staðsetningar dagvöruverslana og eldsneytisstöðva til framtíðar.
  • Eignatengsl á dagvörumarkaði og eldsneytismarkaði, en stórir eigendur þessara fyrirtækja eiga oft í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði. Eignatengsl þessara fyrirtækja við birgja voru einnig til skoðunar.
  • Áhrif samrunanna á birgðahald og dreifingu á eldsneytismarkaði.