Lufthansa samsteypan greindi frá því nú fyrir skömmu að lágfargjaldaflugfélagið Germanwings yrði lagt niður en aðgerðin er hluti af miklum breytingum innan samsteypunnar sem miða að því að draga úr framboði. Hafa stjórnendur félagsins látið hafa eftir sér að það geti tekið nokkur ár fyrir flugiðnaðinn að ná sér af áhrifum kórónuveirunnar.

Lufthansa er stærsta flugsamsteypa Evrópu en fyrir utan samnefnt flugfélag eru Austrian Airlines, Swiss International Air Lines, Brussels Airlines og Eurowings einnig innan samstæðunnar. Auk þess að leggja Germanwings niður mun Lufthansa taka varanlega úr rekstri sex Airbus A380 vélar, sjö Airbus A340 vélar og fimm Boeing 747 vélar auk þess sem ellefu Airbus A 320 vélar verða teknar úr umferð á styttri vegalengdum.

Samkvæmt frétt Reuters mun floti Austrian Airlines og Swiss International Air Lines einnig verða minnkaður.