Verkefni sem miðar að því að leggja grunn að jarðhitaklasa (geothermal cluster) hér á landi, þar sem fyrirtæki og hið opinbera leggja sitt af mörkum, er nú komið vel á veg. Hákon Gunnarsson rekstrarhagfræðingur og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir viðskiptalögfræðingur vinna saman að því að fá fyrirtæki og stofnanir til samstarfs, auk þess sem upplýsinga er aflað og úr þeim unnið áfram. Verkefnið má rekja til þess að prófessor Michael Porter við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, einn áhrifamesti fræðimaður heims á sviði samkeppnishæfni viðskiptafræði, kom hingað til lands árið 2006 og kynnti m.a. rannsókn um samkeppnishæfni Íslands og hvernig mætti efla hana enn frekar. Minntist hann þar á að Ísland hefði alla möguleika til að mynda sterkan efnahagslegan klasa á sviði orkumála, ekki síst jarðhita, alveg eins og sjávarútvegs þar sem orkugeirinn væri með sterkan grunn hér á landi, ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orku. Í fyrirlestri sínum 2. október 2006 sagði Porter einnig að hann sæi skýr merki "ofhitnunar" í íslensku hagkerfi og það þyrfti að fara varlega ef ekki ætti illa að fara fyrir íslenskum efnahag. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur Porter, ásamt samstarfsmönnum hans, sýnt því mikinn áhuga að vinna með Íslendingum að styrkja grundvöll þess að hér á landi geti myndast jarðhitaklasi. Með þessu gæti Ísland styrkt stoðir efnahagskerfis landsins á grundvelli þekkingar sem væri í fremstu röð og einstök. Þannig gæti myndast grundvöllur fyrir nýsköpun og þekkingu sem líkleg væri til þess að styrkja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma. Hákon og Þóra Margrét vinna nú að verkefninu innan Háskólans í Reykjavík.

Samstarf lykilatriði

Hákon segir það skipta miklu máli fyrir verkefni eins og þetta að það sé unnið frá upphafi í samstarfi við færustu fræðimenn og þá helst innan Harvard-háskóla. Innan viðskiptafræðideildar skólans hefur verið þróuð aðferðafræði sem byggist á því að fá til samstarfs hið opinbera, fyrirtæki og háskóla, til þess að móta klasa á einstökum sviðum efnahagslífsins. Þekking á jarðhita er óvíða meiri en hér á landi og því þykir myndun jarðhitaklasa hér raunhæfur möguleiki. Í tenglsum við verkefnið mun Dr. Christian Ketels, frá Harvard-háskóla og einn nánasti samstarfsmaður Porters, flytja fyrirlestur 14. maí nk. um kenningar klasafræðanna, gagnrýni á þær og hvernig þær geta hjálpað Íslendingum eftir efnhagshrunið. Hákon segist sannfærður um að tækifæri Íslands, horft til langrar framtíðar, liggi öðru fremur í orkugeiranum og þá ekki síst á sviði jarðhita. "Við höfum mikil tækifæri hér á landi til þess að ná ákveðinni forystu í orkumálum og þeim viðskiptatækifærum sem þegar eru farin að skapast á þeim vettvangi, ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orku, þar með talið jarðhita. Okkar vinna snýr að því að treysta grunn þess að við getum nýtt tækifærin og um leið verið með skýra framtíðarsýn sem aðrar þjóðir geta horft til."

Ört vaxandi verkefni

Verkefnið hefur vaxið nokkuð að undanförnu og segir Hákon sífellt fleiri sýna því áhuga. Umhverfis-, iðnaðar-, utanríkis-, og efnahags- og viðskiptaráðuneytið, eru þegar orðin samstarfaðilar að verkefinu líkt og Útflutningsráð, Fjárfestingastofa og Orkustofnun. Auk þess eru Íslandsbanki, Lýsing, Reykjavík Geothermal, RARIK, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Landsnet, Carbon Recycling International þegar samstarfsaðilar. Þá eru Rannís, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og RES (The School for Renewable Energy Science) einnig aðilar að verkefninu. Hákon segir verkefnið vaxa hratt. Enda full ástæða til þar sem tækifærin á þessu sviði, sem verkefnið nær til, séu nær óþrjótandi.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .