Íslenski fjártæknisprotinn Monerium hefur lokið fjögurra milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur um 520 milljónum króna. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að fjármögnunin muni koma til með að styðja við áform fyrirtækisins um að hefja útgáfu þjóðargjaldmiðla á bálkakeðjur. Fyrst í röðinni verði næst stærsti gjaldmiðill heims, evra.

Fjármögnunin var leidd áfram af Taavet+Sten, fjárfestingafélagi Sten Tamkivi og Taavet Hinrikus. Taavet Hinrikus er fyrsti starfsmaður Skype og einn stofnenda hugbúnaðarrisans Wise og Sten Tamkivi er einn stofnenda Teleport og núverandi vörustjóri Topia.

Meðal annarra fjárfesta sem tóku þátt voru Crowberry Capital, Request Network, Davíð Helgason, Hjalmar Winbladh, Balaji Srinivasan og aðilar sem tengjast fjártæknisprotum á borð við Eco, Pipedrive, Request Network og Skype.

Í kjölfar umræddrar fjármögnunar hefur Monerium alls sótt um 8 milljónir dala í fjármögnun.

Fyrr á þessu ári sameinuðu Tamviki og Hinrikus krafta sína og settu á laggirnar fjárfestingafélag sem fjárfestir í fjártæknisprotum.

Í tilkynningunni segir Tamkivi að Monerium geti laðað að mikinn fjölda nýrra notenda sem muni færa eignir að andvirði hundruð milljarða í evrum og pundum á bálkakeðju.