Tvær vélar EasyJet flugu jómfrúarflug sitt frá London Gatwick og Genf til Keflavíkurflugvallar í gær. EasyJet er nú næst umsvifamesta flugfélag á Íslandi. Af því tilefni héldu fulltrúar félagsins morgunverðarfund í breska sendiherrabústaðnum þar sem farið var yfir rekstur félagsins og áhrif komu þess á Ísland.

EasyJet er stærsta flugfélag Bretlands og telur Stuart Gill, breski sendiherrann á Íslandi, að aukin flugtíðni þess muni hafa mjög jákvæð áhrif á bæði íslenska og breska ferðalanga. „Eini ókosturinn er kannski sá að hingað koma fleiri Bretar," sagði Gill við mikinn fögnuð viðstaddra. „En að öllu gríni slepptu mun koma EasyJet þýða aukna samkeppni á þessum flugleiðum." Hann telur komu þess munu hafa jákvæð áhrif á viðskipti Breta og Íslendinga.

Borga ekki fyrir það sem ekki þarf

Mantra EasyJet er að halda verði lágu. Í því skyni eru farþegar ekki látnir greiða fyrir neitt sem þeir ekki þurfa, að sögn Ali Gayward, framkvæmdastjóra hjá flugfélaginu. Matur og farangurspláss eru almennt ekki innifalin í miðaverðinu og er það því að meðaltali 30% lægra en hjá helstu samkeppnisaðilum að hennar sögn.

Hún segir aukna ferðatíðni á milli Bretlands, Sviss og Keflavíkur vera mjög góðar fréttir fyrir fólk í viðskiptalífi sem gjarnan þurfi að sækja fundi til Evrópu.