*

föstudagur, 16. apríl 2021
Frjáls verslun 11. apríl 2020 19:01

Leggja í ferðalag með vörumerkjum

Hönnunarstofan Ulysses aðstoðar fyrirtæki að skilgreina vörumerki sín á skilvirkari hátt, með aðferð sem kallast Ferðalagið.

Sveinn Ólafur Melsted
Viktor Weisshappel og Alberts Muñoz eru mennirnir á bak við Ulysses. Báðir hafa þeir hlotið innlendar sem og alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín.
Gígja Einars

Ulysses er tiltölulega ung hönnunarstofa sem sérhæfir sig í mörkun með það að markmiði að framkvæma djarfar hugmyndir og skapa grípandi ásýnd fyrir viðskiptavini sína. Hönnunarstofan spratt upp úr mörkunardeild auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks, sem nú heitir Aton. JL eftir samruna stofunnar við Aton. Leiðir mannanna á bak við Ulysses, þeirra Viktors Weisshappel og Alberts Muñoz, lágu saman á fyrrnefndri auglýsingastofu og eru þeir eigendur hönnunarstofunnar ásamt Aton.JL. Meðal þekktra vörumerkja sem Ulysses hefur unnið fyrir má nefna Víking, Listahátíðina í Reykjavík, Icelandic Lamb, Þjóðminjasafnið, Kex Hostel, Norður Salt, Austurhöfn, Good Good og Fiskmarkaðinn.

„Við viljum halda í skapandi ferðalag með viðskiptavinum okkar til þess að uppgötva kjarna vörumerkis þeirra. Við leitumst eftir að þróa vörumerkið með því að koma fram með djarfar hugmyndir sem miða að því að búa til sjónræn einkenni sem gera vörumerkið eftirminnilegt. Við erum í raun vörumerkja upplifunarfyrirtæki, því við hönnum ekki einungis sjónræn einkenni vörumerkisins, heldur förum við einnig í gegnum stefnumótunarhluta vörumerkisins," segir Albert.

Halda í ferðalag með viðskiptavininum

Vinnulagið sem Albert lýsir hér að ofan, og að hans sögn aðgreinir Ulysses frá samkeppnisaðilum sínum, byggir á aðferðafræði sem hann bjó til sjálfur og gaf nafnið Ferðalagið (e. Journey). Um er að ræða stefnumótandi nálgun sem gerir hönnunarstofunni kleift að skilgreina vörumerkja- og samskiptahönnunarverkefni sín á skilvirkari hátt.

„Ég hóf störf á Jónsson & Lemacks árið 2006. Fyrstu árin var ég mest í þessum dæmigerðu verkefnum sem auglýsingastofur fá inn á borð til sín, en í kringum árið 2010 fór ég að vinna meira og meira í vörumerkja verkefnum. Fljótlega fór ég að einbeita mér alfarið að slíkum verkefnum og smám saman bjó ég til þessa aðferðafræði og gaf henni nafnið Ferðalagið. Aðferðafræðin er byggð á rannsóknum og þeirri reynslu sem við höfum aflað okkur," segir Albert og bætir við:

„Helsti tilgangur Ferðalagsins er að ná fram árangursríkri niðurstöðu. Við viljum ekki búa til nokkrar mismunandi hugmyndir fyrir viðskiptavininn til að velja úr, heldur viljum við einblína á hvaða eiginleika vörumerkið eigi að draga fram og koma fram með fastmótaða hugmynd út frá því. Það má segja að við viljum kafa dýpra ofan í hlutina og hitta beint í mark strax í fyrstu tilraun."

„Við gætum þess einnig að vera í miklum samskiptum við viðskiptavininn og að hann sé samþykkur því að fara í þá stefnu sem við leggjum til," segir Viktor.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem komið er í verslanir. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.

Stikkorð: vörumerki Ferðalagið Ulysses