Stjórn þýska flugfélagsins Lufthansa hefur gefið græna ljósið á að hefja endurnýjun á flugflotanum með pöntun á 108 nýjum flugvélum frá Boeing og Airbus. Listaverðið er níu milljarðar evra, jafnvirði tæpra 1.500 milljarðar íslenskra króna. Til að gefa einhverja mynd af stærð samningsins þá gengu stjórnendur Icelandair í síðasta mánuði frá samningi um kaup á sextán 737 MAX flugvélum frá Boeing. Listaverð vélanna sextán nam 1,6 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 188 milljarða íslenskra króna.

Flugvélapöntun Lufthansa hljóðar upp á sex Boeing 777-300s, tvær A380-risaþotur frá Airbus, 30 A320ceo-vélar og 70 A320/321neo-vélar frá Airbus. Þetta munu vera sparneytnari þotur en Lufthansa á nú þegar, samkvæmt umfjöllun fréttastofu Reuters af málinu.