Norska orkufyrirtækið Statsnett, hollenska orkufyrirtækið TenneT og þýski þróunarbankinn KfW hafa ákveðið að leggja 571 metra langan sæstreng á milli Tonstad í Noregi og Wilster í Þýskalandi. Bróðurpartur strengsins verður neðansjávar, eða 516 kílómetrar en 55 metrar verða lagðir á landi Þýskalands-megin.

Félagið Nexans Norway hefur verið valið til að sinna verkefninu í norskri og danskri lögsögu og ABB AB mun annast verkefnið í þýskri lögsögu. ABB AB mun einnig byggja tengimannvirki í Tonstad og Wilster.

Áætlað er að sæstrengurinn, sem ber nafnið NordLink, verði tekinn í gagnið árið 2020 að loknum prufufasa. Fjárfestingin nemur 1,5 til 2 milljörðum evra. Þetta kemur fram á vef Statsnett.

Sæstrengur til Bretlands á teikniborðinu

Norðmenn hafa þegar hafið vinnu við lagningu sæstrengs til Danmerkur sem ber nafnið Skagerrak 4, og er það sá fjórði sem er lagður á milli landanna. Mun heildarflutningsgeta nema 1.700 MW að framkvæmdum loknum.

Þá er ráðgert að Norðmenn taki ákvörðun á næstu misserum um það hvort þeir hyggist leggja sæstreng til Bretlands, í samvinnu við Breta. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Statsnett hugðust Norðmenn taka ákvörðun fyrir lok árs 2014, en verði strengurinn að veruleika er áætlað að hann verði kominn í gagnið árið 2020. Flutningsgeta hans mun nema 1.400 MW og lengdin verður yfir 700 kílómetrar.