Evrópusambandið (ESB) mun mæla með að aðildarríki sín leggi á takmarkanir á ónauðsynleg ferðalög frá Bandaríkjunum, nú þegar Covid-smitum fjölgar vestanhafs.

Aðildarríki ESB geta þó hvert um sig ákveðið hvort hleypa eigi bandarískum ferðamönnum um landamæri sín gegn framvísun bóluefnavottorðs eða neikvæðum niðurstöðum úr sýnatökum eða að þeir sæti sóttkví, samkvæmt heimildarmanni fréttastofu BBC . Leiðbeinandi tilmæli ESB er að vænta í vikunni.

ESB aflétti takmörkunum sem voru í gildi um komu Bandaríkjamanna til Evrópu í júní síðastliðnum. Bandaríkin hafa aftur á móti haldið banni sínu á ónauðsynlegum ferðalögum frá Evrópu, sem lagt var á í mars 2020, óbreyttu. Fyrr í mánuðinum sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að skorturinn á gagnkvæmni yrði ekki látinn vara í nokkrar vikur.

Daglegt meðaltal spítalainnlagna í Bandaríkjunum vegna kórónaveirunnar er komið yfir 100 þúsund í fyrsta sinn í átta mánuði. Nýjasta bylgjan skýrist af Delta-afbrigðinu og bitnar mest á suðurhluta Bandaríkjanna, þó smitum fjölgi á landsvísu.