*

sunnudagur, 19. janúar 2020
Innlent 29. desember 2017 12:26

Leggja til 0,5% lækkun tryggingagjalds

Miðflokkurinn leggur til lækkun tryggingagjalds og afnám virðisaukaskatts á bækur og áskriftargjöld fjölmiðla í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpinu.

Ritstjórn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Haraldur Guðjónsson

Miðflokkurinn leggur til 0,5% lækkun tryggingagjalds og afnám virðisaukaskatts á bækur. Þetta kemur fram í breytingartillögum við tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2018.

Lagt er til að tryggingagjald lækki úr 5,4% í 4,9% um áramótin til samræmis við samkomulag um lækkun tryggingagjalds sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í janúar 2016. Í tilkynningu segir að lækkunin muni eðli málsins samkvæmt nýtast best litlum og meðalstórum fyrirtækjum og að augljóst svigrúm sé til lækkunar nú vegna þverrandi atvinnuleysis og góðrar stöðu ríkissjóðs.

Í öðru lagi leggur Miðflokkurinn til að virðisaukaskattur á bækur verði afnuminn strax og þannig staðið við loforð sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið.

Í þriðja lagi leggur Miðflokkurinn til að virðisaukaskattur á áskriftargjöld fjölmiðla verði afnuminn, en tillagan er skref í að jafna stöðu fjölmiðla á samkeppnismarkaði.