*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 13. febrúar 2020 16:02

Leggja til 2 milljarða arðgreiðslu

Hagnaður Sjóvá nam rúmlega 3,8 milljörðum króna í fyrra. Stjórn leggur til að 50% hagnaðar verði greiddur sem arður til hluthafa.

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður tryggingafélagsins Sjóvá nam rúmlega 3,8 milljörðum króna í fyrra, samkvæmt nýbirtu ársuppgjöri félagsins.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta á árinu 2019 nam 2.192 milljónum króna (12M 2018: 1.631 m.kr.) og hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 2.218 milljónum króna (12M 2018: 679 m.kr. tap). Líkt og áður segir nam heildarhagnaður tímabilsins 3.853 milljónum króna (12M 2018: 652 m.kr.).

Ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins nam 10,0% og jókst talsvert frá fyrra ári þegar ávöxtunin nam 0,9%. Samsett hlutfall var 95,1% (12M 2018: 97,4%) og horfur fyrir árið 2020 gera ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 95% og að hagnaður fyrir skatta verði um 3,4 milljarðar króna.

808 milljóna hagnaður á fjórða ársfjórðungi

Hagnaður af vátryggingastarfsemi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs fyrir skatta nam 324 milljónum króna (4F 2018: 480 m.kr.) og hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 504 milljónum króna (4F 2018: 6 m.kr.). Heildarhagnaður tímabilsins nam 808 milljónir króna (4F 2018: 392 m.kr.) Ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins nam 2,1% á tímabilinu (4F 2018: 1,0%) og samsett hlutfall var 99,0% (4F 2018: 96,5%).

„Árangursríkt og ánægjulegt ár að baki“

„Að baki er afar árangursríkt og ánægjulegt ár. Rekstur félagsins var góður en þar munar mestu um mikinn viðsnúning í afkomu af fjárfestingum þar sem sveiflur á milli ára nema um þremur milljörðum. Fjölgun viðskiptavina á síðasta ári undirbyggir vöxt í iðgjöldum og þar með góða niðurstöðu í samsettu hlutfalli sem var í lok árs 95,1%. Það er í takt við horfur og okkar langtímamarkmið. Í samanburði á rekstrarniðurstöðu milli ára, er vert að benda á að á árinu 2018 féllu til óvenju mörg stór tjón ásamt því að afkoma af fjárfestingum var langt undir væntingum.

Ávöxtun eignasafns félagsins var góð á fjórða ársfjórðungi og skýrist af góðri afkomu skráðra hlutabréfa. Afkoma af skuldabréfum var undir væntingum ásamt því að áfram voru óskráð hlutabréf færð niður á fjórðungnum. Ávöxtun eignasafnsins á árinu var hins vegar yfir væntingum, bæði af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum. Horfur félagsins fyrir árið 2020 gera ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 95% og að hagnaður fyrir skatta verði um 3.400 m.kr. og taka horfurnar mið af afkomu félagsins það sem af er árinu 2020.

Ánægja og tryggð hefur vaxið hjá Sjóvá á undaförnum árum. Starfsánægja er með því hæsta sem mælist hér á landi og saman höfum við stóraukið frumkvæði og virkt samtal við okkar viðskiptavini, bæði á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði. Þetta hefur mælst vel fyrir og höfum við verið efst í Íslensku ánægjuvoginni síðustu þrjú árin en á síðasta ári mældist félagið með marktækan mun á keppinautana. Í tryggðarkerfinu okkar Stofni eru nú meira en 35 þúsund fjölskyldur og hafa þær aldrei verið fleiri. Á síðasta ári endurgreiddum við tjónlausum og tryggum fjölskyldum í Stofni 570 milljónir króna en 24.500 fjölskyldur nutu endurgreiðslunnar. Við hjá Sjóvá erum stolt af því að vera eina tryggingafélagið hér á landi sem umbunar þannig tryggðina en í 25 ár höfum við endurgreitt tjónlausum viðskiptavinum í Stofni og nema endurgreiðslurnar samtals um 10,5 milljörðum króna á núvirði.“

Leggja til tæplega 2 milljarða arðgreiðslu

Í ársuppgjörinu kemur einnig fram að stjórn félagsins leggi til að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2019 sem nemur 1,44 kr. á hlut eða um 1.940 milljónum króna, eða 50% af hagnaði fjárhagsársins sem sé í samræmi við opinbera arðgreiðslustefnu félagsins.

Stikkorð: Sjóvá uppgjör