Hagnaður VÍS nam 1.710 milljónum króna í fyrra, samanborið við 2.154 milljóna króna hagnaði árið 2013. Iðgjöld breyttust lítið milli ára, voru 16.023 milljónir króna í fyrra, en 16.090 milljónir árið 2013. Fjárfestingartekjur námu 2.439 milljónum í fyrra, en voru 2.631 milljón árið 2013. Heildartekjur ársins voru 18.022 milljónir, samanborið við 18.234 milljónir ári fyrr.

Heildargjöld námu 16.069 milljónum í fyrra, samanborið við 15.677 milljónir árið 2013 og munar þar mestu um að hluti endurtrygginga í tjónum nam 178 milljónum króna í fyrra, en 1.005 milljónum árið 2013.

Rekstrarkostnaður minnkar eilítið milli ára og nam 3.919 milljónum króna í fyrra. Kostnaðarhlutfallið hélst óbreytt í 21,4%. Í tilkynningu kemur fram að framlegð af vátryggingarekstri var 46 milljónir króna.

Heildareignir í lok ársins námu 46.466 milljónum króna um síðustu áramót, en voru 46.368 milljónir ári fyrr. Fjárfestingaeignir félagsins námu 34.658 milljónum um áramótin, en voru 36.581 milljónir í árslok 2013. Eigið fé félagsins lækkaði úr 16.624 milljónum árið 2013 í 15.956 milljónir í fyrra og er eiginfjárhlutfall vís 34,3%. Arðsemi eigin fjár var 10,5% í fyrra, en var 13,9% árið 2013.

Í tilkynningu kemur fram að lagt verði til að hluthöfum verði greiddur út arður sem nemur 2.500 milljónum króna.

Þar er jafnframt haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra að hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi hafi verið góður og skýrist af góðri ávöxtun af skuldabréfum og hlutabréfum á tímabilinu. „Ávöxtun fjárfestinga félagsins nam 2,94% á fjórðungnum og 7,1% á árinu og telst góð þegar horft er til helstu viðmiða. Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var hins vegar undir væntingum á árinu og þá sérstaklega afkoma af eignatryggingum og ökutækjatryggingum. Samsett hlutfall árið 2014 endaði í 100,7% en árið 2013 var samsett hlutfall 97,8%. Tjónaþungi ársins er meiri en búist var við í upphafi árs og skýrist hann annars vegar af aukinni tjónatíðni og hins vegar af fjölgun stærri tjóna. Áherslur stjórnenda á einföldun og aukna skilvirkni í rekstri hafa skilað sér í því að rekstrarkostnaður lækkaði á árinu," segir hún.