Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag var samþykkt að veita 329 milljónir króna till lykilstofnana vegna áfallins kostnaðar í ágúst í september vegna eldgossins og jarðhræringanna norðan Vantajökuls. Að auki samþykkti hún að teknar yrðu frá 358 milljónir króna til áramóta ef ástand á gossvæðinu helst óbreytt út þann tíma eða samtals 687 milljónir króna.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Forsætisráðuneytinu verður því lagt fé til eftirfarandi stofnana:

  • Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra - 126 m.kr. sem viðbótarfjárheimildir til að standa straum af ýmsum óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði vegna eldgossins og jarðhræringanna, þar með talið kostnað Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og lögregluembætta við gæslu á svæðinu.
  • Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands – 61 m.kr. til að bregðast við ýmsum óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði, þar með talið verulega auknum kostnaði við starfsmannahald og ferðalög.
  • Landhelgisgæslan – 36 m.kr. til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði að mestu vegna viðbótareftirlits með flugi umfram það sem fjárheimildir ársins gera ráð fyrir að hægt sé að sinna.
  • Umhverfisstofnun – 12 m.kr. til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði, þar með talið nauðsynlegum tækjakaupum vegna loftgæðamælinga.
  • Vatnajökulsþjóðgarður – 12 m.kr. til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði sem tengist að mestu vöktun og þátttöku í mælingum vísindamanna.
  • Veðurstofa Íslands – 59 m.kr. til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði sem tengist verulega aukinnar vinnu og viðveru starfsmanna bæði við vöktun mæla en einnig viðveru á gosslóðum. Þá hefur reynst nauðsynlegt að endurnýja  tæki til að geta uppfyllt kröfur almannavarna.
  • Vegagerðin – 24 m.kr. til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði sem tengist annars vegar verkefnum varðandi lokanir að ósk Almannavarna og hins vegar vegna varnarvirkja við brýr til að draga úr líkum á tjóni við aukna vatnavexti.