Fyrir aðalfundi Regins sem haldinn verður miðvikudaginn 11. mars komandi liggur sú tillaga að leggja niður tveggja manna varastjórn félagsins.

Hagfræðingarnir Finnur Reyr Stefánsson og Hjördís Dröfn Vilhjálmsson eru í framboði til áframhaldandi setu í varastjórninni, og væru þau sjálfkjörin, ef tillagan verður ekki samþykkt.

Sama á við um aðalstjórnina, þar er sama stjórn áfram í framboði og er sjálfkjörið í hana, en það eru þau:

  • Albert Þór Jónsson

Albert hefur verið í stjórn Reginn frá 2015, en hann er sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur sem var áður framkvæmdastjóri hjá FL Group og forstöðumaður hjá eignastýringu LSR, hjá verðbréfamiðlun Fjárvangs, hjá Landsbréfum og fjármálaráðgjafi hjá Glitni.

  • Bryndís Hrafnkelsdóttir

Bryndís hefur verið í stjórn Regins frá 2014, en hún er viðskiptafræðingur og forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands. Áður starfaði hún sem fjármálastjóri hjá Landsfestum og Hagkaupum, sem og sérfræðingur hjá Kaupþingi, framkvæmdastjóri Debenhams og bókari hjá HOf og KPMG.

  • Guðrún Tinna Ólafsdóttir

Guðrún Tinna hefur verið í stjórn Regins frá 2018, en hún er með meistaragráðu í fjármálum frá HÍ, diplómanám frá LHÍ og Háskólanum á Bifröst, B.Sc. í viðskiptafræði frá HÍ en hún starfar sem rekstrarstjóri verslunarsviðs Fríhafnarinnar. Áður var hún framkvæmdastjóri Ígló, verkefnastjóri hjá Baugi Group, sviðstjóri hjá Verðbréfasjóði Íslandsbanka VÍB, og sjóðsstjóri hjá Kaupþing i í Lúxembúrg.

  • Heiðrún Emilía Jónsdóttir

Heiðrún Emelía hefur verið í stjórn Regins frá því í fyrra, en hún er lögfræðingur frá HÍ og sjálfstætt starfandi lögmaður, en áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Eimskips, framkvæmdastjóri hjá LEX lögmannsstofu, upplýsingafulltrúi Landsímans, framkvæmdastjóri og lögfræðingur hjá KEA og lögmaður á Lögmannsstofu Akureyrar

  • Tómas Kristjánsson

Tómas er stjórnarformaður Reginn, en hann er viðskiptafræðingur frá HÍ, og annar eigandi Siglu, og Klasa. Áður var hann framkvæmdastjóri hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, síðar hjá Íslandsbanka og Glitni.