Lagt er til að Íbúðalánasjóður hætti alfarið að veita ný lán og verði starfsemi hans skipt upp, annars vegar í Húsnæðisstofnun sem tekur við hlutverki sjóðsins og Íbúðalánasjóð, sem muni annast núverandi safni útlána og skulda. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri og sameiginlegri skýrslu ráðgjafafyrirtækjanna KPMG og Analytica um framtíðarskipan húsnæðismála. Skýrslan á að vera innlegg í vinnu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem að skila Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, tillögum sínum í apríl.

Í skýrslunni er lagt til húsnæðiskerfi á danskri fyrirmynd og felur hún í sér að Húsnæðisstofnun taki við hlutverki Íbúðalánasjóðs og að nýtt húsnæðislánakerfi sem muni lána húsnæðisfélögum lán. Eiginfjárkröfur þeirra á að byggja á sama grunni og gildir fyrir önnur fjármálafyrirtæki. Þó má gera ráð fyrir að eiginfjárkrafa til húsnæðislánafélaga verði lægri en nú er gerð til viðskiptabanka vegna minni áhættu.

Þá segir í skýrslunni að líklega muni stóru viðskiptabankarnir þrír stofna hver og einn sitt félag. Eins megi ætla að minni fjármálastofnanir komi sér saman um stofnun slíks félags og sama gæti gilt um lífeyrissjóðina. Þannig er líklegt að til verði a.m.k. fjögur til fimm húsnæðislánafélög. Í nýju kerfi er gert ráð fyrir að lántakendur fái sín lán afgreidd sem peningalán hjá húsnæðislánafélagi eða banka sem rekur húsnæðislánafélag með sama hætti og þeir gera nú hjá bönkum og ÍLS og fyrirkomulagið svipað. Talið er líklegt að hámarkslánveiting verði 80% af virði eignar. Að því gefnu að lántaki standist greiðslumat geti hann valið um lánstegund, t.d. fasta vexti og lengd vaxtatímabils.