Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fella niður málshöfðun á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Bjarni segir ljóst eftir samtöl við fjölda þingmanna bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu að breytt staða sé uppi í málinu á Alþingi. Af þeirri ástæðu og vegna stöðu málsins að öðru leyti sé afar brýnt að Alþingi veiti málinu forgang og komi meðferð þess í traustar skorður. Ekki verði búið við neina óvissu um áframhaldandi stuðning Alþingis við málshöfðunina og þar með umboð saksóknara til að reka málið fyrir landsdómi.

Margvíslegur rökstuðningur fyrir niðurfellingunni kemur fram í greinargerð með tillögunni. Meðal annars segir að forsendur þær sem meirihluti Alþingis hafi gefið sér fyrir málarekstrinum hafi brostið þegar landsdómur vísaði frá stærstu ákæruliðum málsins. Hafi þeir varðað viðbrögð þáverandi forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins og embættisfærslur almennt, en eftirstandandi ákæruliðir hefðu aldrei einir og sér leitt til málshöfðunar.