Þingmenn Pírata og þeir Ögmundur Jónasson í VG, Helgi Hjörvar í Samfylkingunni og Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lögðu til á Alþingi í dag að bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden verði veittur ríkisborgararéttur hér á landi.

Ögmundur spurði Unni Brá Konráðsdóttur, formann allsherjarnefndar Alþingis, við upphaf þingfundar í dag hvort Snowden hafi verið boðin landvist hér á landi. Unnur Brá svaraði honum til að ekki hafi verið fjallað um mál Snowden í nefndinni og benti á að ákveðin lög og reglur gildi um veitingu ríkisborgararéttar. Þá sagði hún að miðað sé við að umsækjendur séu staddir hér á landi.

Snowden lak í síðasta mánuði miklu magni upplýsinga um umfangsmiklar hleranir bandarískra yfirvalda víða um heim en m.a. voru hleruð samskipti ýmissa ráðamanna erlendra ríkja. Snowden flúði frá Bandaríkjunum til Hong Kong. Þar dvaldi hann um tíma en fór nýverið til Rússlands og er þar enn án vegabréfs. Hann hefur sótt um landvist í 19 löndum, þar á meðal hér á landi.