Átta þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkunum öllum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um aðskilnað fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi. Flutningsmennirnir eru þau Ögmundur Jónasson, Helgi Hjörvar, Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Er þetta í sjöunda skipti sem slík tillaga er lögð fram á Alþingi.

Í greinargerð með tillögunni segir að með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapist hætta á að tjón vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir. Sé það vegna þess að viðskiptabankastarfsemi njóti sem slík sérstakrar verndar hins opinbera, sem baktryggi starfsemina að ákveðnu marki með innlánavernd.