Starfshópur sem skoðaði efnahagslegar og samkeppnislegar hættur við víðtækt eignarhald lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum hefur skilað niðurstöðum sínum að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Hópurinn leggur meðal annars til að lífeyrissjóðir marki fjárfestingastefnu til langs tíma og stefni að því að auka vægi erlendra eigna til þess að draga úr áhættu.

Þá er jafnframt lagt til að lífeyrissjóðum verði gert skylt að birta að minnsta kosti árlega skýrslu með upplýsingum um samskipti við félög sem þeir eiga hlut í og um hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðla að samkeppni milli lífeyrissjóða þar sem það á við og að lög um starfsemi lífeyrissjóða endurspegli þær breytingar er varða stjórnarhætti sem hafa orðið á lögum um fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög.

Í starfshópnum sátu Gunnar Baldvinsson, formaður, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, Áslaug Árnadóttir, lögmaður og Eggert Benedikt Guðmundsson, verkfræðingur. Forsætisráðherra, í samráði við ráðherranefnd um efnahagsmál, skipaði starfshóp til að skoða hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs í júní 2017.

Nánar tiltekið fékk starfshópurinn fékk það hlutverk að skoða hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur fælust í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum. Einnig hvort æskilegt væri að setja reglur eða gera lagabreytingar um eignarhald og aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja í þeim tilgangi að draga úr áhættu sjóðanna og tryggja samkeppni á markaði.

Helstu tillögur hópsins eru eftirfarandi:

  • Lífeyrissjóðir marki fjárfestingarstefnu til langs tíma og stefni að því að auka vægi erlendra eigna til að draga úr áhættu
  • Lífeyrissjóðir séu skyldugir til að móta stefnu um stjórnarhætti lífeyrissjóða sem eigenda í atvinnufyrirtækjum
  • Lífeyrissjóðum gert skylt að birta að minnsta kosti árlega skýrslu með upplýsingum um samskipti við félög sem þeir fjárfesta í og um hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum
  • Stjórnvöld skoði í samráði við hagsmunaaðila að lögum verði breytt þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til húsnæðissparnaðar og jafnframt að sjóðfélagar geti ráðstafað 3,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða til húsnæðissparnaðar að eigin vali
  • Mikilvægt að stuðla að samkeppni milli lífeyrissjóða þar sem það á við
  • Lög um starfsemi lífeyrissjóða endurspegli þær breytingar er varða stjórnarhætti sem hafa orðið á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingafélög