Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um náttúrupassa. Í umsögninni kemur fram að ráðið fagni því að stjórnvöld láti sig málið varða og leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til athugasemda þess.

Viðskiptaráð gerir meðal annars þá athugasemd að þeir staðir sem henta vel til sértækrar gjaldtöku ættu að hafa lagaheimild til að innheimta gjald af ferðamönnum, en aðrir staðir ættu að falla undir náttúrupassa. Slík útfærsla dragi úr áttroðningi á vinsælustu ferðamannastöðunum ólíkt einum náttúrupassa fyrir alla áfangastaði.

Gjaldtaka fari fram í gegnum sjálfseignarstofnun

Þá segir Viðskiptaráð að æskilegra væri að gjaldtaka færi fram í gegnum sjálfseignarstofnun fremur en í gegnum ríkissjóð, þar sem slíkt komi í veg fyrir að gjaldið verði að skattstofni þegar krafan um innviðauppbyggingu dvíni. Þá beri að afnema gistináttaskatt samhliða upptöku náttúrupassa.

Í umsögninni segir að fyrirliggjandi frumvarp sé betra en óbreytt ástand. Brýnt sé að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi sem fyrst til að náttúruperlur landsins liggi ekki áfram undir skemmdum. Leggur ráðið því til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til athugasemdanna.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér .