Ekki er brýn þörf í nánustu framtíð á að breyta eignarhaldi Landsnets að mati Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þetta segir hún í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins vegna greinargerðar nefndar um möguleika á breytingum á eignarhaldi Landsnets sem birt var í fyrradag.

Landsnet er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar (64,73%) og RARIK (22,51%) en í greinargerðinni eru lagðir fram tveir möguleikar til að opna á möguleika á breyttu eignarhaldi. Fyrri tillagan felur í sér að lögum um Landsnet verði breytt þannig að ríki og sveitarfélögum verði heimilt að kaupa hluti sem eru í eigu orkufyrirtækjanna. Seinni tillagan felur í sér að sérregla um eignarhald á Landsneti verði felld brott en þá myndi gilda ákvæði sem gerir kröfu um meirihlutaeign ríkis og sveitarfélaga, eða fyrirtækja í þeirra eigu á Landsneti.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku sagði forstjóri Landsnets að það gæti ekki verið fyrirkomulag til framtíðar að Landsnet sé í eigu hagsmunaaðila. Spurð um þau ummæli segir Ragnheiður Elín að það geti að ýmsu leyti verið óheppilegt að eignarhald Landsnets sé í höndum raforkufyrirtækja, en það stafi hins vegar af því að það voru þau fyrirtæki sem áttu flutningsvirkin sem lögð voru inn í Landsnet við stofnun þess árið 2005.