„Til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi s.s. innflutningi fíkniefna, mansali, hryðjuverkum og auknum umsvifum skipulagðra glæpagengja, skal veita lögreglunni forvirkar rannsóknarheimildir sambærilegar þeim sem lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur." Þetta segir í drögum að ályktunum á 33. flokksþingi Framsóknarflokksins.

Í drögunum bregður ýmsum málum fyrir. Má þar meðal annars nefna að flokkurinn telji brýnt „að lækka tryggingargjald enda átti hækkun þess að vera tímabundin ráðstöfun meðan atvinnuleysi væri hátt," að því er segir í drögunum.

Þá er einnig vikið að viðskipta- og neytendamálum. Meðal þess sem þar er rætt er að skoða skuli kosti og galla þess að skilja að viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. Einnig segir: „Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að uppræta misnotkun hlutafélagaformsins sem felst í svonefndu kennitöluflakki. Framsóknarmenn hvetja til samvinnurekstrar í auknum mæli."