*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 9. nóvember 2018 09:09

Leggja til hlutafjárhækkun

Stjórn Icelandair Group leggur til allt að 960 milljóna króna hlutafjárhækkun að nafnvirði vegna kaupanna á WOW air.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group.
Aðsend mynd

Stjórn Icelandair Group hefur boðað til hluthafafunda og mun hann fara fram 30. nóvember nk. Þar verða kaupin á WOW air meðal annars lögð fyrir fundin, en eins og áður hefur komið fram er samþykki hluthafafundar eitt af skilyrðum kaupanna. Stjórn félagsins leggur einnig til allt að 960 milljóna króna hlutafjárhækkun að nafnvirði vegna kaupanna á WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til kauphallarinnar.

Alls verða þrjár tillögur lagðar fyrir fundinn og eru þær eftirfarandi:

Tillaga um samþykki hluthafafundar á kaupum félagsins á öllu hlutafé WOW air hf. 

Félagið hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í WOW air hf. („WOW“), eins og komið hefur fram í tilkynningu til kauphallar. Viðskiptin eru meðal annars háð samþykki hluthafafundar félagsins og því verður lögð fram tillaga á fundinum um samþykki þeirra. 

Tillagan er svohljóðandi:

„Stjórn Icelandair Group leggur það til við hluthafafund að kaup- og sölusamningur um hlutafé í WOW air hf. verði samþykktur.“

Tillaga um heimild til stjórnar um hlutafjárhækkun vegna greiðslu samkvæmt kaupsamningi.

Lagt er til að stjórn verði veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins. Heimild þessi er ætluð til ráðstöfunar vegna fyrirhugaðra kaupa á WOW. Tillaga til hlutafjárhækkunar er svohljóðandi:

„Stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 334.905.779 að nafnverði (krónur þrjúhundruð þrátíu og fjórar milljónir níuhundruð og fimm þúsund sjöhundruð sjötíu og níu), með áskrift nýrra hluta. Gengi skal vera samkvæmt kaupsamningi um kaup á WOW. Hlutirnir skulu tilheyra sama hlutaflokki og annað hlutafé í félaginu. Hluthafar hafa ekki forgangsrétt til áskriftar að hinum nýju hlutum. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Stjórn getur sett nánari reglur um sölu hlutanna. Heimild stjórnar til hlutafjárhækkunar samkvæmt þessari málsgrein fellur niður þann 1.12.2019 að því marki sem hún er þá enn ónotuð.“  

Tillaga um heimild til stjórnar um hlutafjárhækkun.

Lagt er til að stjórn verði veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins og selja í útboði í tengslum við fyrirhuguð kaup félagsins á WOW. Tillagan til hlutafjárhækkunar er svohljóðandi:

„Stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 625.000.000,- að nafnverði (krónur sexhundruðtuttuguogfimmmilljónir). Stjórn skal ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt. Stefnt er að því að hlutirnir, að hluta eða öllu leyti, verði boðnir þeim aðilum til kaups, sem eru hluthafar í félaginu í dagslok 30. nóvember næstkomandi. Hlutirnir tilheyra sama hlutaflokki og annað hlutafé í félaginu. Um hömlur á viðskipti með hina nýju hluti og skyldu til innlausnar gilda samþykktir félagsins og gildandi lög. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Stjórn getur sett nánari reglur um sölu hlutanna. Heimild stjórnar til hlutafjárhækkunar samkvæmt þessari málsgrein fellur niður 1.12.2019 að því marki sem hún er þá enn ónotuð.“

Stikkorð: Icelandair Group WOW air