Starfshópur á vegum fjármálaráðherra leggur til að lagður verði sérstakur kolefnisskattur á bensín og dísilolíu hér á landi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Fjármálaráðherra segist reikna með að nýtt frumvarp um skattlagningu ökutækja og eldsneytis verði lagt fram á Alþingi í haust.

Á blaðamannafundi þar sem niðurstöður starfshóps um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis voru kynntar lagði Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, á það áherslu að mikil þróun hefði átt sér stað á alþjóðamarkaði frá því starfshópnum var falið þetta verkefni.

Einnig þurfi að taka tillit til þess að tveir aðrir hópar vinna að tillögum er varða málið, annars vegar nefnd um almenningssamgöngur og hins vegar nefnd um flutningsjöfnun á landsbyggðinni. Samræma þurfi niðurstöður þessara þriggja nefnda og skoða þær svo í ljósi breyttra aðstæðna á frá því þeim voru falin sín verkefni. Starfshópurinn sem kynnti niðurstöður sínar í dag var skipaður fyrir rúmu ári síðan. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að tillögur þeirra eigi að miða að því að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja og minnka losun koltvísýrings (CO2)frá vegasamgöngum.

„Hin pólitíska stefna í þessum málum hefur enn ekki verið mótuð,“ sagði Árni. „Ég býst við að það verði gert í sumar og í kjölfarið verði lagt fram frumvarp um eldsneytisskatta, væntanlega þegar þing hefst í haust.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .