*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 1. desember 2020 18:15

Leggja til lækkun útsvars í Reykjavík

Sjálfstæðismenn vilja nota arðgreiðslur OR til að lækka útsvarið niður í 14,07%. Íbúar félagslega kerfisins geti keypt íbúðir sínar.

Ritstjórn
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins, sem er stærsti flokkurinn í borgarstjórn en situr í minnihluta.
Haraldur Guðjónsson

Skuldir borgarinnar fara umtalsvert yfir núgildandi skuldaviðmið í nýrri fjármálaáætlun til næstu fimm ára að mati Eyþórs Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag býst borgarstjórn Reykjavíkur, sem er undir forystu meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar, við að rekstur A hluta borgarsjóðs verði með ríflega 11 milljarða króna halla á næsta ári.

Sjálfstæðismenn hyggst því leggja fram ýmsar tillögur til úrbóta, þar á meðal um hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu og að auðvelda fólki í félagslega kerfinu að kaupa húsnæði. Jafnframt vilja Sjálfstæðismenn ganga lengra í að bæta hjólreiðastíga og vernda útivistarsvæði auk sölu fyrirtækja borgarinnar sem starfa á samkeppnismarkaði.

Fyrri umræða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun fyrir árin 2021-2025 eru nú til umræðu í borgarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn mun m.a. leggja til í dag að arðgreiðslur OR verði ráðstafað til lækkunar útsvars, þannig að álagningarhlutfall útsvars verði 14,07% í stað 14,52% og lækkun fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. Þá mun flokkurinn leggja til  fjölda tillagna við aðra umræðu sem fram fer fimmtánda þessa mánaðar í borgarstjórn.

Engin viðleitni sýnd til að minnka útgjöld þvert á meirihlutasáttmála

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að áætlunin sýni stöðuga skuldasöfnun og enga viðleitni til að minnka útgjöld þvert á það sem standi í meirihlutasáttmálanum um að skuldir skuli greiddar niður.

„Skuldir Reykjavíkurborgar jukust verulega í góðærinu og nú þegar tekjur fara minnkandi er enginn tilraun gerð til þess að minnka útgjöld þrátt fyrir fögur fyrirheit hafi verið um annað í sáttmála meirihlutans,“ segir Eyþór.

„Fyrirséð er að skuldir borgarinnar munu fara vaxandi og á endanum verða fyrir ofan viðmiðunarmörk, enda beinlínis ráðgert í fimm ára áætluninni að skuldir borgarinnar fari umtalsvert yfir núgildandi skuldaviðmið sem  er 150%. Ráðgert er að skuldaviðmið borgarinnar fari í 169,1% árið 2023. Það eru ekki góðar fréttir.“

Leggja til 5% hagræðingarkröfu

Eyþór segir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn m.a. leggja til sölu eigna og að gerð verði 5% hagræðingarkrafa í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar.

„Við myndum vilja sjá hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu og munum leggja til 5% hagræðingu við aðra umræðu. Miðlæg stjórnsýsla borgarinnar kostar hátt í sex milljarða á ári þrátt fyrir tilraunir meirihlutans með stjórnkerfisbreytingar sem áttu að ná fram hagræðingu. Staðreyndin er sú að miðlægri stjórnsýslu var eingöngu dreift víðar um stjórnkerfið í stað þess að draga úr henni,“ útskýrir Eyþór.

„Við viljum auka viðhald á eignum borgarinnar, bættar samgöngur í borginni og tryggja leikskólapláss sem löngu hefur verið lofað. Þá viljum við losa um fjármuni borgarinnar með því að selja Gagnaveitu Reykjavíkur enda skýtur skökku við að fjárvana borgin skuli liggja með tugi milljarða fasta í fjarskiptakerfum hjá Gagnaveitunni, sem er á samkeppnismarkaði. Við leggjum til að hún verði seld hið fyrsta.“

Græna planið svokallaða ósjálfbært

Eyþór vill jafnframt selja íbúðir félagslega kerfisins til þeirra íbúa sem það vilja.

„Skynsamlegt væri að auðvelda fólki í félagslega kerfinu að eignast húsnæðið sem það býr í, fremur en þenja út félagslega kerfið sem minnkar möguleika fólks á að komast út úr kerfinu. Kerfið á ekki að þenjast út með ósjálfbærum vexti heldur þvert á móti á kerfið að vera fyrir fólkið sjálft. Við mumum flytja tillögu í þessum efnum við aðra umræðu.“

Eyþór segir græna planið, sem eigi að vera víðtæk áætlun um sjálfbærar fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík, ósjálfbært.

„Málshátturinn „allt er vænt sem vel er grænt“ á því miður ekki við um græna planið. Þótt svo að sumt í planinu sé vissulega skynsamlegt er annað óarðbært, óþarft og ósjálfbært. Sem dæmi má nefna þá fimm milljarða sem áætlað er að fari í endurbætur á Grófarhúsinu við Tryggvagötu. Þeim fjármunum er ráðstafað þrátt fyrir að enn liggi ekki fyrir hver endanleg starfsemi á að vera í húsnæðinu. Slík ráðstöfun er óábyrg svo ekki sé meira sagt,“ segir Eyþór.

„Þá liggur fyrir að nær eingöngu á að byggja upp á rándýrum þéttingarreitum. Við viljum bæta samgöngur og almenningssamgöngur í borginni með skynsamlegum og sjálfbærum hætti. Við viljum líka ganga lengra í orkuskiptum og nýta rafmagn og hreina orkugjafa í meira mæli en nú er gert og planið gerir ráð fyrir. Tryggja þannig bætt loftgæði og minni losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Eyþór.

„Við myndum vilja ganga lengra í að bæta hjólreiðastíga og vernda útivistarsvæði eins og Elliðaárdalinn, Laugadalinn og Strandlengjuna. Þá myndum við vilja losa borgina úr samkeppnisrekstri, s.s. rekstri malbikunarstöðvar sem þvert á móti er græn. Borgin hefur ekkert með það að gera að vera að vasast í slíkum rekstri á 21. öldinni. Hvað þá að fjárfesta fyrir milljarða fyrir flutningi og nýrri staðsetningu Malbikunarstöðvarinnar Höfða eins og gert er ráð fyrir í planinu.“