Meðal tillagna starfshóps samgönguráðuneytisins um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi er að búið verði til kerfi varaflugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og samræmd þjónustugjöld undir stjórn ISAVIA.

Gjaldið, sem nefnt er að gæti verið á bilinu 100 til 300 krónur á hvern fluglegg, verði nýtt til að standa straum af uppbyggingu og rekstri kerfisins í heild. Lesa má tillögurnar á vef stjórnarráðsins .

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður er uppsöfnuð þörf á viðhalds og uppbyggingu flugvalla innanlands talin nema 1,2 milljarða króna. Því til viðbótar er lögð áhersla á uppbyggingu flughlaða við skilgreinda varaflugvelli Keflavíkurflugvalla, en sérstaklega þá sem eru utan Reykjavíkurflugvallar, það er vallanna á Akureyri og Egilsstöðum.

Jafnframt er lagt til að innanlandsflugvallakerfið verði skilgreint sem hluti af almenningssamgangnakerfi landsins og farin verði hin svokalla skoska leið í niðurgreiðslum á flugferðum íbúa sumra hluta landsins.

Miðað verði við 200 til 300 km fjarlægð

Þannig verði skilgreind ákveðin svæði þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóti 50% niðugreiðslu til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir, eða 8 leggir á hvern einstakling. Er lagt til að við ákvörðun á hvaða svæði um er að ræða sé miðað við 200 til 300 kílómetra akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

Eins og staðan er nú hefur ríkið haldið uppi lágmarks þjónustustigi í innanlandsflugi með útboðum sem kostar ríkið um 300 milljónir króna á ári. Er um að ræða flug frá Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs og Hornafjarðar, og frá Akureyri til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar.

Loks leggur starfshópurinn til að Isavia og tollayfirvöld tryggi verði hnökralaust umferð farþega í beinu tengiflugi um Keflavíkurflugvöll til að stuðla að dreifingu ferðamanna, svo sem í flugi milli Keflavíkur og Akureyrar.