Haustið 2012 skipaði þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa að almannaheillum. Nefndin hefur nú skilað af sér drögum að frumvarpi, en samkvæmt þeim er lagt til að stofnað verði nýtt félagaform sem nefnist „félag til almannaheilla“ og verði heimilt og skylt að hafa skammstöfunina „fta“.

Samkvæmt frumvarpinu munu lögin gilda um félög sem ekki er komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn heldur eru stofnuð samkvæmt samþykktum sínum til eflingar á skýrt afmörkuðum málefnum til almannaheilla. Ákvæði annarra laga um einstakar tegundir félaga halda gildi sínu.

Í nefndinni áttu sæti Ragna Árnadóttir þáverandi formaður Almannaheilla, Hrafn Bragason, fv. Hæstaréttardómari og Ingibjörg H. Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndin telur rétt að í framhaldi af þessari vinnu sé rétt að huga að athugun á samningu nýrra skattalagaákvæða varðandi skatt af aðföngum, arfi og gjafafé hvað slík félög varði.

Hægt er að skoða frumvarpsdrögin hér.