Starfshópur um nýtt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn er við það að ná samkomulagi. Beðið er eftir að samningar við ríkið um samræmingu launa og lausn á vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Þetta sagði Árni Stefán Jónsson varaformaður BSRB og stjórnarformaður LSR í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Markmiðið sé að samræma lífeyrisréttindi þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðnum og opinberra starfsmanna. Í nýju kerfi yrði sömu iðgjöld og sami lífeyrisaldur fyrir alla.

Fyrr í dag kom fram að hækka þurfi iðgjald sem ríkið greiði í LSR um eitt prósentustig til að færa tryggingafræðilegan halla sjóðsins undir lögbundið lágmark. Það mun kosta ríkissjóð milljarð króna í árleg útgjöld. Árni sagði lengra í land að vandi LSR verði leystur, en það sé hluti af verkefnum starfshópsins að koma með tillögur að lausnum.