Lagt er til í áliti stýrihóps um upplýsingatækni að undirbúningi rafrænnar sjúkraskrár fyrir landið allt verði hraðað. Stýrihópur um upplýsingatækni hefur skilað áfangaskýrslu sinni til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, og hvetur eindregið til átaks í rafrænum samskiptum í heilbrigðisþjónustu.

Í frétt á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að stýrihópurinn var skipaður síðast liðið sumar og var falið að fjalla um þá möguleika sem liggja í rafrænum samskiptum í heilbrigðisþjónustunni einkum með tilliti til heilbrigðisnetsins og uppbyggingar rafrænnar sjúkraskrár. Fyrir hópnum lá það verkefni að gera tillögur um hvernig ná mætti fram stefnumiðum heilbrigðisráðuneytisins fyrir upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu næstu 5-8 árin og hvernig uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár skyldi háttað á Íslandi á næstu 3-5 árum.

Tillögurnar sem starfshópurinn hefur nú skilað heilbrigðisráðherra byggjast á greiningu og stöðumati á umfangi og kostnaði við upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Tillögurnar fjalla í meginatriðum um áframhaldandi uppbyggingu og rekstur rafrænnar sjúkraskrár og heilbrigðisnets.

Tillögurnar eru í fimm liðum en megin tillagan er sú að þegar á þessu ári verði gerð kröfulýsing sem gæti orðið grundvöllur útboðs hins almenna hluta sjúkraskrár er taki til landsins alls. Um 1300 milljónir króna renna nú til upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni í heild sinni, m.a. til nettenginga, búnaðar, hugbúnaðarleyfa, þjónustu, o. fl. Það er mat starfshópsins að mögulegt sé að nýta þetta fé enn betur með aukinni samvinnu og samnýtingu mannafla og búnaðar í verkefnum sem tengjast rafrænni sjúkraskrá segir í fréttinni.