Aðeins ein umsögn hefur borist dómsmálaráðuneytinu um drög að lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, samkvæmt frétt Morgunblaðsins .

Hún er frá Neytendastofu, og leggur til að kaupendur og milligönguaðilar eðalmálma og -steina verði skráningaskyldir, auk seljenda. Aðeins er gert ráð fyrir að seljendur verði skráningaskyldir í drögum ráðuneytisins.

Neytendastofa segir milligöngu þriðja aðila í viðskiptum með eðalmálma hafa aukist undanfarið. Kaupendur komi gagngert til landsins til að kaupa eðalmálma- og steina og auglýsi eftir seljendum í fjölmiðlum. Vandséð sé að ákvæðið nái til slíkrar starfsemi.

Frumvarpið var samið af starfshópi sem falið var að innleiða fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, sem verður tekin upp í EES í október.