Viðskiptaráð leggst gegn stofnun embættis umboðsmanns aldraðra, en þingsályktunartillaga um málið liggur nú fyrir Alþingi. Viðskiptaráð telur frekar að það ætti að fækka ríkistofnunum en ekki fjölga þeim.

Hið opinbera starfsrækir þegar 182 ríkistofnanir og nokkur hundruð rekstareiningar til viðbótar á sveitastjórnarstiginu. Viðskiptaráð segir að ef stjórnvöld telji það nauðsynlegt að hið opinbera sinni þeim verkefnum sem embætti aldraðra sé ætlað að inna þá ætti það að heyra undir sameinaða stofnun um borgaraleg réttindi. Viðskiptaráð leggur til að sameina eftirfarandi örstofnanir í stofnun um borgaraleg réttindi:

  • Umboðsmaður barna
  • Persónuvernd
  • Fjölmenningarsetur
  • Jafnréttisstofa
  • Barnaverndarstofa

Viðskiptaráð segir að þessar stofnanir séu núna afar smáar, en samanlagður starfsmannafjöldi þeirra er 36. Svo litlar stofnanir eru illa farnar til að starfrækja hlutverk sitt með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt tillögunni er hlutverk umboðsmanns aldraðra að gæta réttinda og hagsmuna aldraðra.

„Hér er lagt til að stjórnvöld sinni hagsmunagæslu fyrir afmarkaðan þjóðfélagshóp. Að mati Viðskiptaráðs er óeðlilegt að slík hagsmunagæsla sé fjármögnuð með opinberu fé. Nú þegar eru til ýmis samtök eldri borgara sem sjá um að gæta hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum. Þessum verkefnum er því þegar sinnt af einkaaðilum sem fjármagna hagsmunabaráttu sína sjálfir. Engin ástæða er til að víkja frá því fyrirkomulagi.“

Viðskiptaráð bendir einnig á að hlutverk umboðsmanns Alþingis sé að gæta þess að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra. Frekari aðkoma hins opinbera sé því óþörf.