Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur sent frá sér ítarlega skýrslu, sem send verður þingmönnum allra flokka sem sæti eiga á Alþingi, um það hvernig ná megi fram raunhæfum fjárlögum án skattahækkana.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS en Ólafur Örn Nielsen, formaður SUS, afhenti af þessu tilefni Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar Alþingis, fyrsta eintak skýrslunnar í Alþingishúsinu í dag.

Í tilkynningunni kemur fram að fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir 87,4 milljarða króna halla þrátt fyrir 63,1 milljarða króna skattahækkanir. Aðeins sé gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins lækki um 7,3% að raunvirði á næsta ári.

„Það er miður í ljósi þess að ríkisútgjöld hafi stóraukist síðustu árin. Sú staðreynd ætti að sýna fram á að verulegt svigrúm er til enn meiri sparnað,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórn SUS telur að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins þannig að hægt verði að ná fram raunhæfum fjárlögum án skattahækkana og án þess að það komi verulega niður á velferðar-, heilbrigðis- eða menntakerfinu. Ríkissjóður er nú á heljarþröm og brýnt er að allir landsmenn, sem og ráðherrar ríkisstjórnarinnar, horfist í augu við þá staðreynd að skera verður niður í ríkisrekstri eftir gríðarlega útþenslu hins opinbera á undanförnum árum. Niðurskurður er eina færa leiðin fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu sem hafa ekki svigrúm til aukinna skattgreiðslna.“

Telja að bæta megi hag ríkissjóðs um 127,7 milljarða króna

Samkvæmt skýrslunni leggur SUS til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 72,7 milljarða króna. Auk þess megi varlega áætla að breyting á skattlagningu lífeyrisgreiðslna muni bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 40 milljarða króna og að bætt umhverfi viðskiptalífsins muni skapa um 5.000 störf og 15 milljarða í auknum skatttekjum. Samanlagt sé því um að ræða 127,7 milljarða króna sem myndu minnka fjárlagahallann um 64,6 milljarða án skattahækkana að mati SUS.

Þá leggur SUS til að eftirfylgni með fjárlögum verð hert, m.a. með því að veita Ríkisendurskoðun valdheimildir til að beita forstöðumenn ríkisstofnana, sem fara fram úr fjárheimildum án eðlilegra útskýringa, viðurlögum.

Sjálfstæðisflokkurinn biðjist afsökunar á útgjaldaþenslu

„Þessu til viðbótar fagnar SUS efnahagstillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins en telur jafnframt að þar sé gengið alltof skammt í átt til lækkunar ríkisútgjalda,“ segir í tilkynningunni.

„Þó telur SUS að Sjálfstæðisflokkurinn verði að biðjast afsökunar á sínum þætti í því að hafa stóraukið ríkisútgjöld á síðustu árum.“