Bæði Arion banki og Íslandsbanki leggjast gegn samþykkt frumvarps sem heimilar ferðaskrifstofum að endurgreiða ferðir, sem féllu niður vegna veirufaraldursins, með gjafabréfi í stað peningagreiðslu. Þetta kemur fram í umsögnum bankanna tveggja við frumvarpið.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að ferðaskrifstofur verði uppiskroppa með lausafé. Það hefur verið nokkuð umdeilt en því er ætlaður afturvirkur gildistími til 15. mars þessa árs og renna lögin sitt skeið 30. júní. Hafa ýmsir talið að með þessu móti sé verið að skerða réttindi sem njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Í umsögn Íslandsbanka er bent á það að sé greitt fyrir ferð með greiðslukorti gildi endurkröfuréttur í átján mánuði frá því að kortafærsla var framkvæmd. Algengt sé að fólk borgi með korti löngu áður en farið er í ferð til að njóta téðra réttinda. Með frumvarpinu sé gengið gegn téðum endurkröfurétti.

„Endurkröfurétturinn er ríkur sem fyrr segir og er vandséð að sú leið sem lögð er til með frumvarpinu standist lög um greiðsluþjónustu og alþjóðlega kortaskilmála. [...] Þá er óvíst hvort alþjóðlegar kortasamsteypur víki frá skilmálum sínum þó svo að lögum einstakra ríkja verði breytt þannig að þau kunni að brjóta gegn skilmálunum,“ segir í umsögn Íslandsbanka.

Í svipaðan streng er tekið í umsögn Arion banka. Leggst bankinn gegn því að frumvarpið verði samþykkt sem lög.