Sjávarútvegsráðuneytið hefur kynnt drög að lagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að myndavélar fylgist með starfsfólki og vinnu þeirra um borð í öllum fiskiskipum, öllum höfnum, flutningatækjum, fiskvinnslum auk þess sem ætlunin er að Fiskistofa reki flota af fjarstýrðum loftförum til að tryggja að eftirlitið verði alsjáandi um alla hegðan þeirra sem störfum þessum sinna.

Samtök atvinnulífsins leggjast gegn áformum sjávarútvegsráðuneytisins um gríðarlega umfangsmikið myndavélaeftirlit sem ætlað er að koma upp til að fylgjast með meintum og ætluðum brotum á lögum sem gilda um veiðar, vinnslu, flutning og meðferð afla. Þetta kemur fram á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins .

Fram kemur í umsögn samtakanna að sú framtíðarmynd sem dregin er upp með frumvarpinu sé ógeðfelld og skora samtökin á Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að draga frumvarpið til baka.

Enginn vafi er á að nái þessi áform fram að ganga munu þau verða fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og innan fárra ára gætu Íslendingar búið við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð sem hingað til hefur einungis verið til í skáldsögum og kvikmyndum.

Samtökin telja rök fyrir svo umfangsmiklu eftirliti skorta og ástæður til að efast um að árangur verði í samræmi við erfiðið.

Því er beint til ráðuneytisins að beita frekar aðferðum sem betur samræmast vestrænni þjóðfélagsgerð þar sem langflestir fara að lögum og reglum og haga sér sem ábyrgir einstaklingar í stað þess koma upp kerfi sem byggir á því að allir séu tortryggðir og ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks.