„Dæmin um allan heim sanna að afskipti hins opinbera af almennum leigumarkaði eru vond hugmynd,“ segir Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Fréttablaðinu og á Vísi í dag.

Hildur bendir á að af málflutningi frambjóðenda Samfylkingarinnar og VG megi ráða að borgin eigi að koma að því að byggja og jafnvel leigja út íbúðir á almennum markaði.

Hildur leggst gegn slíkum opinberum afskiptum og segir að það hafi í för með sér að byggingarkostnaður hækki yfirleitt og allar útgáfur af leiguþaki séu skammgóður vermir sem bjagar samkeppni og er loks engum til góðs.

„Hagfræðingurinn Assar Lindbeck orðaði það svo að slíkt væri skilvirkasta leiðin til að eyðileggja borg, fyrir utan sprengjuárás,“ segir Hildur og bendir á að fikt hins opinbera í markaðnum þrýsti alltaf upp verði á endanum en einkaaðilar í heilbrigðri samkeppni stuðli að lægra verði.