„Í ljósi stöðu Kína sem ört vaxandi efnahagsveldis, sem búist er við að taki við sessi Bandaríkjanna sem stærsta hagkerfi heims innan 10 ára,“ telur utanríkismálanefndi afar veigamikla hagsmuni og tækifæri felast í fríverslunarsamningi Íslands og Kína. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar.

Viðskipti milli Íslands og Kína hafa aukist hratt og útlit er fyrir áframhaldandi vöxt á næstu árum. Í nefndarálitinu segir að viðskiptin hafi hins vegar einkennst af miklum við viðskiptahalla „en von er til þess að lækkun og niðurfelling tolla á sjávarafurðir, sem eru 90% útflutnings Íslands til Kína, ýti undir útflutning og stuðli að meiri jöfnuði í viðskiptum landanna.“

„Nefndin styður almennt uppbyggingu fríverslunarnets Íslands í gegnum EFTA og tvíhliða samninga með það fyrir augum að tryggja viðgang og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og telur fríverslunarsamninginn við Kína afar mikilvægt skref í því sambandi,“ segir í álitinu.

Árni Þór Sigurðsson og Óttarr Proppé gera fyrirvara við álitið sem lýtur að því að samkomulag Íslands og Kína um samstarf á sviði vinnumála verði formlega samþykkt. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, er ekki samþykk áliti nefndarinnar og lýtur andstaða hennnar meðal annars að stöðu mannréttindamála í Kína, þar með talið „kúgun kínverskra stjórnvalda á Tíbetum og öðrum þjóðarbrotum, nauðungarvinnu fanga og skertu tjáningarfrelsi, og enn fremur af misgóðri reynslu Nýja-Sjálands af fríverslunarsamningi við Kína.“