Almennt gæti það verið óskynsamlegt að fella niður verðtryggð námslán og gera óverðtryggð lán að eina lánafyrirkomulaginu, að sögn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Hann segir ekki  standa til að leggja fram frumvarp á haustþingi um leiðréttingu á höfuðstól námslána.

Á Alþingi í dag benti Illugi á að tveir hópar sérfræðinga eigi eftir að skila niðurstöðum og tillögum um leiðréttingu höfuðstóls húsnæðislána og um afnám verðtryggingar. Fyrri hópurinn, sem skoðar leiðir til að leiðrétt höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána skili tillögum sínum í nóvember á þessu ári en hópur sérfræðinga sem skoðar leiðir til að afnema verðtryggingar á neytendalánum skili af sér fyrir árslok.

Hann benti á að þessi mál öll séu liður í aðgerðum gegn skuldavanda heimildanna og þurfi að vinna saman.

Námslán hækka um 70%

Það var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði Illuga hvort leiðrétting á höfuðstólshækkun námslána falli undir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í aðgerðum gegn skuldavandanum og taldi hún skilaboðin varðandi lánin óljós.

„Ég vil benda ráðhera á að aldrei verður hægt að fallast á að fella niður sum verðtryggð lán en önnur ekki,“ sagði hún og benti á að höfuðstóll námslána hafi hækkað um 70% á árunum 2007 til 2010.