Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lagði í dag fram tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina. Í greinargerð með tillögunni segir að hún sé til komin vegna þess að ríkisstjórnin geti ekki „afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.“

Hann segir jafnframt að ríkisstjórnin gangi með þessu í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn sé eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd. Þá leggur hann til að fram að kjördegi sitji starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því séu meiri líkur á að sátt náist um mál sem varði hagsmuni þjóðarinnar.