*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Erlent 25. október 2021 14:07

Leggur inn stærstu pöntun í sögu Tesla

Hertz hefur pantað 100 þúsund Tesla bifreiðar, sem eru stærstu stöku rafbílakaup í sögunni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Bílaleigan Hertz Global hefur lagt inn pöntun fyrir 100 þúsund Tesla bifreiðar, einungis fjórum mánuðum eftir að fyrirtækið lauk greiðslustöðvun (e. chapter 11 bankruptcy). Um er að ræða bæði stærstu pöntun í sögu Tesla og stærstu stöku kaup á rafbílum í sögunni. Talið er að virði samningsins hljóði upp á 4,2 milljarða dala. Bloomberg greinir frá.

Bifreiðarnar verða afhentar á næstu fjórtán mánuðum. Tesla Model 3 bílarnir verða til leigu í helstu borgum Bandaríkjanna og á völdum staðsetningum í Evrópu frá og með byrjun nóvembermánaðar. Viðskiptavinir Hertz fá aðgang að ofurhleðslustöðvum Tesla en bílaleigan hyggst einnig byggja upp eigin hleðsluinnviði.

Pöntunin er fyrsta skrefið í rafvæðingu Hertz á hálfri milljón bifreiða sinna á heimsvísu. Bílaleigan segir að eftir að afhengingu Model 3 bifreiðanna þá muni rafbílar vega um fimmtung af flota félagsins.

Tesla afhenti 241,3 þúsund bifreiðar víðs vegar um heim á þriðja ársfjórðungi, sem var met hjá rafbílaframleiðandanum.
Hlutabréfverð Tesla hækkaði um 4,5% í viðskiptum fyrir opnun markaða í daga og hefur nú aldrei verið hærra. Ásamt pöntuninni frá Hertz þá munu fréttirnar um að Tesla Model 3 bíllinn varð á dögunum fyrsti rafbíllinn til að ná efsta sætinu á lista yfir mest selda nýja bíla á mánaðartímabili einnig hafa ýtt undir gengi félagsins.

Hlutabréf Hertz hafa hækkað um 13% í fyrstu viðskiptum dagsins. Bílaleigan lauk fjárhagslegri endurskipulagningu í júní síðastliðnum þar sem sjóðir í stýringu hjá Knighthead Capital Management, Certares Opportunities og Apollo Capital Management komu inn með nýtt hlutafé. Knighthead er skráður stærsti hluthafi Hertz með 41,7% hlut.

Hertz hóf samstarf við íþróttakappann Tom Brady til að kynna rafvæðingu bílaflota félagsins.

Stikkorð: Hertz Tesla