*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 6. ágúst 2015 08:08

Leggur mikla áherslu á stofnun millidómsstigs

Innanríkisráðherra stefnir á að leggja fram frumvarp um millidómsstig í haust.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ólöf Nordal innanríkisráðherra stefnir á að leggja fram frumvarp um stofnun millidómsstigs í haust svo dómurinn geti tekið til starfa árið 2017. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu.

Hún segist telja að millidómsstig verði gríðarlega mikil réttarbót og almennt séð hafi verið mikill áhugi á því að það yrði að veruleika. Vonast hún til þess að þingið taki vel á móti málinu og það fái góða umfjöllun í vetur, en hún vonast til að ná frumvarpinu inn á fyrstu dögum haustþingsins.

Ólöf segir raunhæft að gera ráð fyrir ári í undirbúning þar til millidómsstigið tæki til starfa árið. „Ég held að það sé þannig að við séum þá að tala um einhvern tímann árið 2017. Það fer eftir því hvernig því er tekið í þinginu. Þetta mál mun þurfa mikla umræðu og vinnu í nefnd. Þannig að ég held að maður þurfi að vera opinn fyrir því að sú tímasetning geti breyst,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.