Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem meðal annars er ráðherra nýsköpunarmála, hefur ákveðið að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og koma hluta af verkefnum hennar til aðila á markaði eða í annan farveg að því er segir í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ástæðan er betri nýting fjármagnsins og jákvæðar breytingar sem orðið hafa á umhverfi nýsköpunar í landinu með tilkomu fjölmargra nýra aðila sem styðja við hana og frumkvöðla.

Meðal áætlaðra breytinga er að skoða að sá hluti stofnunarinnar sem snúa að byggingarrannsóknum beint í samkeppnissjóð og prófanir vegna mannvirkja og vegagerðar verði komið í faggildar prófunarstofur, væntanlega í eigu einkaaðila líkt og bifreiðaeftirlit er í dag.

Nýsköpunargarðar og miðstöðvar verða svo starfræktir í samstarfi við aðila eins og háskólana, en einnig við sveitarfélög til að efla nýsköpunarumhverfið úti á landi. Nánar má lesa um í hvaða farveg fjögur helstu verkefni stofnunarinnar fara á vef Stjórnarráðsins .

81 starfsmenn hjá stofnuninni

Hjá stofnuninni sem varð til árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins starfa nú 81 manns í 73 stöðugildum og kostar stofnunin ríkissjóð rúmlega 700 milljónir króna árlega. Þess utan er svo kostnaður við húsnæði stofnunarinnar í Keldnaholti, en það verður fært til ríkiseigna.

Áfram er gert ráð fyrir að um helmingur þessara 700 milljóna fari til að fylgja eftir þeim verkefnum stofnunarinnar sem framhald verður á, en Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar mun leiða vinnuna innan stofnunarinnar í átt að breytingunum.

Ganga áformin eftir verður stofnunin lögð niður um næstu áramót, en hluti af verkefnum hennar komið í annað rekstrarform. Með breytingunum vill ráðherrann beina opinberum stuðningi við nýsköpun þangað sem hans er þörf í núverandi umhverfi.

„Sú aðstaða og aðstoð sem Nýsköpunarmiðstöð og starfsfólk hennar hefur veitt í gegnum árin hefur skipt sköpum fyrir fjölmarga frumkvöðla og fyrirtæki og tekið þátt í að skapa það nýsköpunarumhverfi sem við njótum dag. Sá árangur gerir okkur kleift að taka næstu skref inn í framtíð nýsköpunarlandsins Íslands,“ segir Þórdís Kolbrún, nýsköpunarráðherra.

„Á þeim þrettán árum frá stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hefur umhverfið tekið stakkaskiptum. NMÍ hefur unnið mikilvægt starf að uppbyggingu á stuðningsumhverfi nýsköpunar og tækniþróunar á Íslandi. Í ljósi þeirra jákvæðu breytinga sem hafa orðið á umhverfi nýsköpunar og frumkvöðla er eðlilegt að endurskoða aðkomu hins opinbera, sérstaklega þegar um ræðir jafn kvikt umhverfi og nýsköpun er. Í dag hafa fjölmargir aðilar bæst við flóru þeirra sem styðja við nýsköpun og frumkvöðla og taka þessi áform mið af því í samræmi við nýsköpunarstefnu.“