Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðu um fjárlögin á Alþingi í gær lögin endurspegli engan veginn þann mikla samdrátt sem ríkissjóður er að lenda í á næstu árum.

„Frumvarp þetta ber keim að því að ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á því að bankakaerfið á Íslandi er hrunið,“ sagði Ármann í ræðu sinni og bætti því við að gera mætti meiri gangskör í niðurskurðinum.

Í ræðu sinni lagði Ármann jafnframt fram þingsályktunartillögu um að tekin yrði upp svo kölluð núll gruns fjárlagagerð (zero-base budgeting), sem Ármann sagði þekkta vinnuaðferð sem ýmsir horfa til í þeim tilgangi að draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér.

„Það getur ekki gengið lengur að horfa eingöngu til þess hversu miklu hefur verið eitt í einstaka liði á undanförnum árum og bæta við þá eða lækka þá lítillega á milli ára eftir því hvernig árferðið er hverju sinni,“ sagði Ármann í ræðu sinni.

„Þá er nýjum liðum bætt við reglulega án þess að mikill eða öflugur rökstuðningur sé þar að baki.“

Ármann lagði einnig til að sparað yrði um 2 milljarða króna með því að láta greiðslur í vegna fæðingarorlofs taka mið af fjárlögum 2007, þó á uppreiknuðu verðlagi.